Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er viðurkennt af AIMS World Running

15. apríl 2024

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og Miðnæturhlaup Suzuki eru viðurkennd af AIMS World Running (Association of Marathons and Distance Races) og hafa verið það frá upphafi.  Það þýðir að brautir beggja hlaupa eru mældar og uppfylla þau alþjóðlegu skilyrði sem samtökin gera til götuhlaupa. Tímar sem þátttakendur ná í þessum hlaupum gilda því í alþjóðlegum viðburðum sem fara fram á tímalágmörk.  Úrslit í Reykjavíkurmaraþoni eru einnig send til Abbott WMM Wanda Age Group World Championships fyrir þá sem setja aldursflokkamet.

 

Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) og Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) hafa átt í viðræðum undanfarin misseri um skráningu þátttakenda í hlaupum ÍBR í Afrekaskrá FRÍ.  Aðilar náðu ekki saman um útfærslu gjaldtöku FRÍ vegna þessa.  Miðnæturhlaup Suzuki og Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka munu ekki sækja um viðurkenningu FRÍ og árangur sem í þeim næst mun því ekki færast í Afrekaskrá FRÍ.  FRÍ hefur ekki kvikað frá því að allir þátttakendur eigi að greiða gjald til að árangur komi í afrekaskrá, en ÍBR hefur það sjónarmið að þátttakendur eigi að geta valið sjálfir hvort að þeir vilji vera skráðir í Afrekaskrá FRÍ og greiða gjald fyrir. Í hlaupum á vegum ÍBR er mun stærri hluti þátttakenda sem ekki fellur undir þann markhóp að fá árangur skráðan í afrekaskrá. Langflestir hlaupa sér til heilsubótar og til að safna áheitum auk þess sem mjög margir koma erlendis frá og eiga þar með ekki heima í skránni.

 

ÍBR harmar að ekki hafa náðst að sætta sjónarmið í þessu máli en hlaupin munu fara fram með líku sniði og undanfarin ár auk þess sem öllu verður til tjaldað á 40 ára afmælisári Reykjavíkurmaraþons.

 

Virðingarfyllst,

Íþróttabandalag Reykjavíkur.

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Kynnisferðir / Reykjavik Excursions
  • Gatorade