Frábær aðsókn í 40 ára afmælishlaup Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka

24. ágúst 2024

Frábær aðsókn var í 40 ára afmælishlaup Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fór fram í dag í björtu og fallegu veðri. Skráðir þátttakendur í dag voru 14.646 sem eru rúmlega 3000 fleiri en á síðasta ári. 7514 karlar voru skráðir í hlaupið, 7069 konur og 23 kvár. Gríðarlega mikil stemning var í miðbænum og fögnuðu áhorfendur vel og mikið fyrir þreyttum hlaupurum sem komu í mark.

Leikar fóru þannig að í maraþoni kvenna sigraði Anca Irina Faiciuc frá Rúmeníu á tímanum 03:06:25, í öðru sæti var Freya Mary Leman frá Bretlandi og í þriðja sæti var Kerry Ann Arouca frá Bandaríkjunum. Fljótasta íslenska konan í maraþoninu var Verena Karlsdóttir á tímanum 03:19:57 en hún var í 9.sæti í heildina.

Í maraþoni karla sigraði Portúgalinn José Sousa á tímanum 02:20:33, í öðru sæti var Philemon Kemboi frá Kenýa og í þriðja sæti var Odd Arne Engesæter. Fljótasti íslenski karlinn í maraþoninu var Sigurður Örn Ragnarsson á tímanum 02:37:07, en hann var í 7.sæti í heildina.

Í hálfmaraþoni kvenna sigraði Halldóra Huld Ingvarsdóttir á tímanum 01:22:07 en í öðru sæti var Vaida Nakrosiute frá Litháen og í þriðja sæti var Anna Berglind Pálmadóttir.

Í hálfmaraþoni karla sigraði Arnar Pétusson á tímanum 01:08:20, í öðru sæti var Nils Fischer frá Þýskalandi og í þriðja sæti var Þorsteinn Roy Jóhannsson.

Í hálfmaraþoni í kváraflokki sigraði Elías Rúni á tímanum 01:44:27, í öðru sæti var Ace Murphy frá Bretlandi og í þriðja sæti var Courtenay Mayes frá Kanada.

Í 10 kílómetra hlaupi kvenna sigraði Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir á tímanum 36:24, í öðru sæti var Elín Edda Sigurðardóttir og í þriðja sæti var Eva Garcia Morales frá Spáni.

Í 10 kílómetra hlaupi karla sigraði Hlynur Andresson á tímanum 30:24, í öðru sæti var Dean Yost frá Bandaríkjunum og í þriðja sæti var Stefán Kári Smárason.

10 kílómetra hlaupi í kváraflokki sigraði Carlos Luis Rangles frá Ekvador, í öðru sæti var Aró Berg Jónasar og Sól Dagsdóttir.

Það var einnig haldið skemmtiskokk, þar sem að hlauparar gátu hlaupið 1,7km eða 3km og hlupu ungir sem aldnir braut fulla af furðuverum, boðið var upp á froðudiskó, tónlistaratriði og haldin var vegleg búningakeppni.

Söfnunarmet var slegið í dag á hlaupastyrkur.is en þegar þetta er ritað hafa safnast yfir 245 milljónir króna sem er magnaður árangur og er ennþá hægt að heita á góð málefni fram á miðnætti, mánudaginn 26. ágúst.


Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar þátttakendum, samstarfsaðilum, áhorfendum, starfsfólki, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem tóku þátt í að skapa þennan frábæra viðburð.


Myndir: Anton Brink Hansen

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Gatorade