Uppskeruhátíð Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2024

17. október 2024

Uppskeruhátíð áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons 2024 fór fram í dag. Aðalstyrktaraðili hlaupsins, Íslandsbanki, bauð til hátíðarinnar í höfuðstöðvum sínum í Norðurturni. Á uppskeruhátíðinni komu saman fulltrúar góðgerðafélaga, hlauparar, starfsmenn og stuðningsaðilar til að fagna góðum árangri áheitasöfnunar Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka sem fram fór á vefnum hlaupastyrkur.is.

Í ár söfnuðu hlauparar 255.351.614 krónum. Heildarupphæð áheita sem hafa safnast í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka frá því áheitasöfnun hófst árið 2006 er nú komin í rúmlega 1.855 milljónir. Þeir hlauparar sem söfnuðu mest fengu viðurkenningu á áheitahátíðinni í dag.

Haraldur Ingi Þorleifsson safnaði mest allra einstaklinga, 2.081.500 krónur fyrir Solaris. Berglind Sigurðardóttir safnaði næst mest, 1.440.000 krónur fyrir björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd. Í þriðja sæti einstaklinga var Nanna Björg Lúðvíksdóttir sem safnaði 1.437.346 krónum fyrir Styrktarfélag Alexöndru P. Barkardóttur. Sá hlaupahópur sem safnaði mestu var "Í minningu Leós Ásgeirssonar" en þau söfnuðu 4.392.277 krónum fyrir Krýsuvíkursamtökin.

169 góðgerðarfélög söfnuðu áheitum í ár, en áheitin hafa verið greidd til góðgerðafélaganna. Öll áheit sem bárust fara beint til félaganna því Íslandsbanki greiðir allan kostnað við söfnunina. Þau félög sem fengu mestu í ár eru Ljósið - endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda sem safnaði 22.833.176 krónur, Gleym-mér-ei styrktarfélag safnaði 16.894.615 og Píeta samtökin, sjálfsvígs- og sjálfsskaða forvarnir. safnaði 12.928.130 krónur.

Hér má sjá myndir frá athöfninni í dag.

ÍÞróttabandalag Reykjavíkur og Íslandsbanki þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við söfnunina í ár.

Styrktaraðilar

  • Íslandsbanki
  • Corsa
  • Suzuki
  • ÍTR
  • 66 Norður
  • Gatorade