Hlaupastyrkur
Góðgerðafélögin
Málefnin sem hægt er að hlaupa fyrir í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka eru fjölmörg. Finnir þú ekki félagið sem stendur þér næst getur þú bent því á að skrá sig til þátttöku með því að senda póst á aheit@marathon.is. Góðgerðarfélög hafa til 1. ágúst til að sækja um þátttöku. Til að skrá sig inná síðu góðgerðarfélagsins sem þú ert í forsvari fyrir ferðu inná corsa! Hér eru leiðbeiningar fyrir þau góðgerðarfélög sem lenda í vandræðum.

Æfingastöðin
Æfingastöðin er miðstöð þjónustu og þekkingar í hæfingu og endurhæfingu fyrir börn og ungmenni. Markmiðið er að veita ráðgjöf og þjálfun með það að leiðarljósi að efla þátttöku í daglegu lífi og auka þannig lífsgæði barnsins og fjölskyldunnar. Í náinni samvinnu við fjölskyldu barnsins eru sett einstaklingsmiðuð markmið sem taka mið af aðstæðum, áhuga og framtíðarsýn einstaklingsins og fjölskyldunnar.

Alzheimersamtökin
Ætlar þú að hlaupa í Reykjavíkur maraþoninu? Við höfum fengið ómetanlegan styrk í gegnum árin frá hlaupurum á öllum aldri. Þú getur styrkt okkur með þínu hlaupi í ágúst.

Augnlækningasjóður Landspítalans
Sjóður til styrktar endurmenntunar og vísindastörf í augnlækningum

Barnaspítalasjóður Hringsins, Vökudeild, Hringurinn
Hringurinn er kvenfélag, stofnað 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.

Bergid headspace
Bergið headspace er ráðgjafa og stuðningsþjónusta fyrir ungt fólk á Íslandi 12-25 ára. Bergið er staðsett á Suðurgötu 10 í Reykjavík. Bergið býður einnig upp á fjarþjónustu.
Þjónusta Bergsins er ókeypis fyrir ungmenni og án takmarkana, það er ungmenna geta komið og fengið ráðgjöf og stuðning um hvað það er sem þau vilja ræða um.

Birta - Landssamtök
Birta Landssamtök eru samtök foreldra og forráðamanna sem misst hafa barn skyndilega. Félagið skilgreinir ekki aldur barna þar sem að börnin okkar eru alltaf börnin okkar.
Félagið heldur úti opnum húsum einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Félagið stendur fyrir fræðslu/fyrirlestrum, leiðisskreytingardegi í desember auk þess að veita foreldrum styrki til m.a. hvíldardvalar, sálfræði- og lögfræðistyrk og útfararstyrk.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar
Björgunarsveit Hafnarfjarðar starfar innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er ein af stofneiningum félagsins.
Kallmerki sveitarinnar er SPORI.
Sveitin starfar á flestum vettvöngum björgunarstarfs og býr sig þannig undir það að geta brugðist við hvers konar vá, hvort sem er á landi eða sjó. Starfsemina má deila niður í þrjá megin flokka: land-, sjó- og tækjaflokk. Hver starfar á sínu sviði og heldur utan um eigin dagskrá. Félagar sveitarinnar leggja mikið á sig til þess að halda sér, jafnt sem tækjum og búnaði í sem allra besta ástandi svo hægt sé að bregðast skjótt við þegar þörf skapast.

Björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd
Björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd eru staðsettar í Rangarþingi eystra. Öflugur hópur sjálfboðaliða sem aðstoðar þegar þörf er á.

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi
Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, er samfélagslegt afl – mannréttindasamtök - sem berst fyrir að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins.

Brakkasamtökin
Brakkasamtökin voru stofnuð árið 2015 og hafa starfað síðan með hagsmunabaráttu BRCA arfbera að leiðarljósi.
Tilgangur Brakkasamtakanna er að efla fræðslu og rannsóknir á BRCA og öðrum meinvaldandi breytingum sem auka líkur á krabbameini í vissum líffærum. Einnig að og veita arfberum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega fræðslu og stuðning.
Brakkasamtökin eru góðferðarfélag sem nýtur eingöngu frjálsra framlaga frá velunnurum sínum og allir stjórnarmenn eru ólaunaðir og gefa vinnu sínu í þágu samtakanna.

Breið bros
Breið bros, samtök aðstandenda barna með skarð í vör og góm, voru stofnuð í nóvember 1995. Félagsmenn eru foreldrar barna sem fæðast með skarð í vör og/eða góm eða önnur andlitslýti, fagfólk og ýmsir þeir sem hafa áhuga á að leggja málefninu lið. Tilgangur Breiðra brosa er að starfa að hinum ýmsu málefnum barna sem fæðast með skarð í vör og/eða góm eða önnur andlitslýti. Í því felst meðal annars stuðningur við foreldra barna með skarð með öflugu tengslaneti, vinna að fræðslumálum og vinna að hagsmuna- og réttindamálum barnanna.

CCU samtökin
CCU samtökin voru stofnuð í október 1995 og eru hagsmunasamtök einstaklinga með Svæðisgarnabólgu - Crohn’s sjúkdóm og Sáraristilbólgu - Colitis Ulcerosa. Helstu markmið samtakanna er að styðja við þá sem greinast og stuðla að aukinni almennri fræðslu. Frekari upplýsingar um samtökin og sjúkdómanna má finna á heimasíðu CCU; www.ccu.is.

CLF á Íslandi
CLF á Íslandi styður við menntun stúlkna í Úganda sem koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum svo sem vegna fátæktar, foreldramissis eða annarra ástæðna. CLF hafa stutt yfir 2000 stúlkur til náms. CLF skólinn býður stúlkunum uppá bóklegu og verklega menntun sem eykur atvinnumöguleika og hjálpar þeim að standa á eigin fótum.

Downs félagið
Tilgangur Félags áhugafólks um Downs heilkenni er að stuðla að velferð og réttindum einstaklinga með Downs-heilkenni og standa að fræðslu til félagsmanna og almennings.
Markmið félagsins er að efla tengsl og samkennd milli félagsmanna og vera vettvangur þar sem fjölskyldur og aðstandendur koma saman, miðla af reynslu sinni og hafa gaman!
Félagið stendur fyrir ýmsum viðburðum, bæði sjálfstætt og í samvinnu við aðra. Má þar nefna fræðslufundi, ráðstefnur og skemmtanir.
Heimasíða félagsins er www.downs.is Allt starf félagsmanna í þágu félagsins er unnið í sjálfboðavinnu.

Dropinn, styrktarfélag barna með sykursýki
Dropinn skipuleggur sumarferðir á hverju ári fyrir börn og unlinga með sykursýki sem og samkomur þar sem fjölskyldur barna með sykursýki hittast.

Dýrahjálp Íslands
Dýrahjálp Íslands leitast við að sjá dýrum sem þarfnast heimilis fyrir skjóli og stefnir að því að stofna til þess dýraathvarf og að vinna almenning í landinu til fylgis og stuðnings við dýravernd. Þangað til hægt verði að stofna til slíks athvarfs mun félagið, með aðstoð sjálfboðaliða félagsins, leitast við að finna þeim dýrum sem annars væri lógað ný heimili, hvort sem það er fósturheimili til skamms tíma þar til framtíðarheimili finnst eða beint á varanlegt heimili.

Einhverfusamtökin
Einhverfusamtökin fta., voru stofnuð 1977. Í samtökunum er fólk á einhverfurófi, foreldrar, fagfólk og aðrir sem áhuga hafa á að beita sér fyrir bættri þjónustu við einhverfa. Félagsmenn eru nú 1070. Starfandi eru frístundahópar fyrir unglinga og stuðningshópar fyrir fullorðna bæði Höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Á höfuðborgarsvæðinu eru einnig starfandi borðspilahópur og handavinnuhópur fyrir fullorðið einhverft fólk. Einnig er starfandi stuðningshópur fyrir foreldra. Samtökin hafa lagt ríka áherslu á hagsmunagæslu, fræðslu- og kynningarstarfsemi. Helstu baráttumálin eru styttri biðlistar eftir greiningu, aukin atvinnutækifæri og fleiri búsetuúrræði. Einhverfusamtökin eru með skrifstofu í Reykjavík.

Einstök börn Stuðningsfélag barna og unglinga með sjaldgæfar greiningar
Einstök börn er stuðningsfélag barna með sjaldgæfa, alvarlega sjúkdóma.
Félagið var stofnað þann 13. mars 1997 af foreldrum 13 barna, sem áttu ekki heima í neinum öðrum starfandi félagasamtökum. í dag veitir félagið mikla þjónustu og bíður upp á fræðslur og hópastarf fyrir börn,foreldra og aðra í fjölskyldunni.
Það teljast í dag um hátt í 800 fjölskyldur í félaginu, og sumar fjölskyldur eru með fleiri en eitt langveikt barn.
Það eru yfir 500 ólíkir sjúkdómar á skrá í félaginu, sem eiga það sameiginlegt að vera langvinnir og hafa varanleg áhrif á lífslíkur barnanna, og lífsgæði barnanna og fjölskyldna þeirra. Í erfiðustu tilfellunum er það vitað með vissu að börnin munu ekki lifa fram á fullorðinsár.
Rekstur félagsins er þungur þar sem fjölgun hefur verið mikil, þörf á þjónustu og úrræðum stór aukist og mikil orka fer í að aðstoða foreldra við að leita að aðstoð og finna úrræði sem henta börnum þeirra þar sem kerfið er flókið.

Empower Nepali Girls - Íslandsdeild
Empower Nepali Girls samtökin veita skólastyrki og annan stuðning til stúlkna sem annars myndu ekki fá tækifæri til að mennta sig.