Hlaupastyrkur
Góðgerðafélögin
Málefnin sem hægt er að hlaupa fyrir í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka eru fjölmörg. Finnir þú ekki félagið sem stendur þér næst getur þú bent því á að skrá sig til þátttöku með því að senda póst á aheit@marathon.is. Góðgerðarfélög hafa til 1. ágúst til að sækja um þátttöku. Til að skrá sig inná síðu góðgerðarfélagsins sem þú ert í forsvari fyrir ferðu inná corsa! Hér eru leiðbeiningar fyrir þau góðgerðarfélög sem lenda í vandræðum.

Æfingastöðin
Æfingastöðin er miðstöð þjónustu og þekkingar í hæfingu og endurhæfingu fyrir börn og ungmenni. Markmiðið er að veita ráðgjöf og þjálfun með það að leiðarljósi að efla þátttöku í daglegu lífi og auka þannig lífsgæði barnsins og fjölskyldunnar. Í náinni samvinnu við fjölskyldu barnsins eru sett einstaklingsmiðuð markmið sem taka mið af aðstæðum, áhuga og framtíðarsýn einstaklingsins og fjölskyldunnar.

Alzheimersamtökin
Ætlar þú að hlaupa í Reykjavíkur maraþoninu? Við höfum fengið ómetanlegan styrk í gegnum árin frá hlaupurum á öllum aldri. Þú getur styrkt okkur með þínu hlaupi í ágúst.

Astma- og ofnæmisfélag Íslands
Astma- og ofnæmisfélag Íslands var stofnað árið 1974 til að berjast fyrir hagsmunum þeirra sem eru með astma og ofnæmi. Einnig vinnur félagið að málefnum er snúa að loftgæðum, innan og utanhúss. Félagið talar máli sjúklinga með astma og ofnæmi við yfirvöld heilbrigðismála, kennslumála og við aðra áhrifahópa í þjóðfélaginu. Félagið heldur úti fræðslu og upplýsingaflæði og er félagsmönnum innan handar er snýr að persónulegri ráðgjöf.

Augnlækningasjóður Landspítalans
Sjóður til styrktar endurmenntunar og vísindastörf í augnlækningum

Barnaspítalasjóður Hringsins, Vökudeild, Hringurinn
Hringurinn er kvenfélag, stofnað 1904. Félagið hefur að markmiði að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna.

Bati Góðgerðarfélag/ Sollusjóður
Batahúsin eru áfanga og stuðningsúrræði fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í þjóðfélaginu eftir fangelsvist, Sollusjóður er styrktarsjóður fyrir þá sem dvelja í Batahúsunum

Bergid headspace
Bergið headspace er ráðgjafa og stuðningsþjónusta fyrir ungt fólk á Íslandi 12-25 ára. Bergið er staðsett á Suðurgötu 10 í Reykjavík. Bergið býður einnig upp á fjarþjónustu.
Þjónusta Bergsins er ókeypis fyrir ungmenni og án takmarkana, það er ungmenna geta komið og fengið ráðgjöf og stuðning um hvað það er sem þau vilja ræða um.

Birta - Landssamtök
Birta Landssamtök eru samtök foreldra og forráðamanna sem misst hafa barn skyndilega. Félagið skilgreinir ekki aldur barna þar sem að börnin okkar eru alltaf börnin okkar.
Félagið heldur úti opnum húsum einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Félagið stendur fyrir fræðslu/fyrirlestrum, leiðisskreytingardegi í desember auk þess að veita foreldrum styrki til m.a. hvíldardvalar, sálfræði- og lögfræðistyrk og útfararstyrk.

Bjarkarhlíð - miðstöð fyrir þolendur ofbeldis
Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá ráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum.
Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómstólaráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.
Bjarkarhlíð tók formlega til starfa 1. febrúar 2017

Björgunarsveit Hafnarfjarðar
Björgunarsveit Hafnarfjarðar starfar innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er ein af stofneiningum félagsins.
Kallmerki sveitarinnar er SPORI.
Sveitin starfar á flestum vettvöngum björgunarstarfs og býr sig þannig undir það að geta brugðist við hvers konar vá, hvort sem er á landi eða sjó. Starfsemina má deila niður í þrjá megin flokka: land-, sjó- og tækjaflokk. Hver starfar á sínu sviði og heldur utan um eigin dagskrá. Félagar sveitarinnar leggja mikið á sig til þess að halda sér, jafnt sem tækjum og búnaði í sem allra besta ástandi svo hægt sé að bregðast skjótt við þegar þörf skapast.

Björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd
Björgunarsveitirnar Dagrenning og Bróðurhönd eru staðsettar í Rangarþingi eystra. Öflugur hópur sjálfboðaliða sem aðstoðar þegar þörf er á.

Björt sýn - styrktarfélag
Björt sýn er styrktarfélag fyrir TAKK munaðarleysingjaheimilið í Homa bay sýslu í Kenía.

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi
Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, er samfélagslegt afl – mannréttindasamtök - sem berst fyrir að blindir og sjónskertir einstaklingar geti lifað sjálfstæðu, innihaldsríku og ábyrgu lífi, og að þeim sé tryggður jafn réttur og jöfn tækifæri til ábyrgrar, virkrar og viðurkenndrar þátttöku í öllum þáttum samfélagsins.

Brakkasamtökin
Brakkasamtökin voru stofnuð árið 2015 og hafa starfað síðan með hagsmunabaráttu BRCA arfbera að leiðarljósi.
Tilgangur Brakkasamtakanna er að efla fræðslu og rannsóknir á BRCA og öðrum meinvaldandi breytingum sem auka líkur á krabbameini í vissum líffærum. Einnig að og veita arfberum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega fræðslu og stuðning.
Brakkasamtökin eru góðferðarfélag sem nýtur eingöngu frjálsra framlaga frá velunnurum sínum og allir stjórnarmenn eru ólaunaðir og gefa vinnu sínu í þágu samtakanna.

Breið bros
Breið bros, samtök aðstandenda barna með skarð í vör og góm, voru stofnuð í nóvember 1995. Félagsmenn eru foreldrar barna sem fæðast með skarð í vör og/eða góm eða önnur andlitslýti, fagfólk og ýmsir þeir sem hafa áhuga á að leggja málefninu lið. Tilgangur Breiðra brosa er að starfa að hinum ýmsu málefnum barna sem fæðast með skarð í vör og/eða góm eða önnur andlitslýti. Í því felst meðal annars stuðningur við foreldra barna með skarð með öflugu tengslaneti, vinna að fræðslumálum og vinna að hagsmuna- og réttindamálum barnanna.

CCU samtökin
CCU samtökin voru stofnuð í október 1995 og eru hagsmunasamtök einstaklinga með Svæðisgarnabólgu - Crohn’s sjúkdóm og Sáraristilbólgu - Colitis Ulcerosa. Helstu markmið samtakanna er að styðja við þá sem greinast og stuðla að aukinni almennri fræðslu. Frekari upplýsingar um samtökin og sjúkdómanna má finna á heimasíðu CCU; www.ccu.is.

CLF á Íslandi
CLF á Íslandi styður við menntun stúlkna í Úganda sem koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum svo sem vegna fátæktar, foreldramissis eða annarra ástæðna. CLF hafa stutt yfir 2000 stúlkur til náms. CLF skólinn býður stúlkunum uppá bóklegu og verklega menntun sem eykur atvinnumöguleika og hjálpar þeim að standa á eigin fótum.

CP félagið
CP félagið er félag einstaklinga með Cerebral Palsy (CP) og aðstandendur þeirra en félagið var stofnað árið 2001. CP er stórt regnhlífarhugtak og er notað yfir marga kvilla sem valda seinkun á hreyfiþroska og líkamsstellingu hjá börnum og einstaklingum. Þeir sem greinast með CP eru jafn ólíkir og þeir eru margir og birtingarmynd fötlunarinnar er ólík. Félagið leggur áherslu á að vera til staðar fyrir félagsmenn, veita fræðslu, standa fyrir viðburðum og opna umræðu um CP og áhrif þess.
Áheit til félagsins verða eyrnamerkt styrktarsjóði félagsins, Mannefli, en fara ekki í daglegan rekstur.

Diabetes Ísland – félag fólks með sykursýki
Aðalstarf félagsins felst í fræðslu. Fræðsla til almennings um sykursýki og hvernig má minnka líkur á að fá hana, fyrsta stigs forvarnir. Fræðsla til sykursjúkra um hvernig má lifa sem best með sykursýki og minnka líkur á fylgikvillum sjúkdómsins, annars stigs forvarnir. Við gefum út prentað fræðsluefni og við gefum út á netinu. Þess utan er svo félagsstarf fyrir okkar félagsmenn, bæði fræðsla og skemmtun.