Hlauparar
Kristín Ýr Lyngdal
Hleypur fyrir Reykjadalur sumarbúðir og er liðsmaður í Áfram Klara fyrir Reykjadal
Samtals Safnað
Markmið
takk fyrir stuðninginn!
Eftir að elsku Klara mín lenti í alvarlegu hoppukastalaslysi sumarið 2021 og varð fyrir alvarlegum höfuðáverkum hefur lífið svo sannarlega breyst; eða það fór öllu heldur á hvolf og svo í nokkra hringi þar á eftir.
Það er ýmislegt sem hefur hjálpað til við að rétta úr kútnum, fært okkur nýjan takt og kennt okkur að gleðjast yfir öðrum hlutum en áður.
Reykjadalur spilar þar stórt hlutverk. Reykjadalur er ævintýrastaður, í orðsins fyllstu merkingu, fyrir börn með sérþarfir. Þar er þeim mætt nákvæmlega eins og þau eru, gleðin er allsráðandi, umhyggjan og kærleikurinn. Þau fá að vera þau, styrkleikar þeirra fá að njóta sín og þau koma endurnærð, rjóð í vöngum og uppfull af góðum minningum heim.
Reykjadalur er þó ekki bara þetta, heldur fyllir Reykjadalur í stórt skarð sem foreldrar barna með sérþarfir kljást við. Börn með sérþarfir eru oft á tíðum ekki að leika við vini eftir skóla, mæta í íþróttir nokkrum sinnum í viku, fara í keppnis- eða æfingarferðir, gista hjá vinum og/eða fara í ferðalög með vinum. Valmöguleikarnir fyrir sumarnámskeið eru einnig af skornum skammti og börnin því oft félagslega einangruð og mjög háð fjölskyldum sínum.
Reykjadalur gefur því bæði börnum fullt hjarta af gleði og um leið okkur foreldrunum hugarró, gleði og þakklæti fyrir að börnin okkar fá tækifæri til að eiga svona stundir með frábæru fólki án okkar foreldrana, það er ekki sjálfsagt.
Takk Reykjadalur <3
Reykjadalur sumarbúðir
Reykjadalur eru sumarbúðir í Mosfellsdal fyrir fötluð börn og ungmenni. Í Reykjadal eru skapaðar ógleymanlegar minningar, farið í óvissuferðir og notið samverunnar.
Nýir styrkir