Hlauparar
Samtals Safnað
takk fyrir stuðninginn!
Ég ætla að hlaupa þetta hálf maraþon fyrir Jönu systir mína.
Þegar Jana hefur komið í umræðu síðustu 5 eða svo ár hef ég ávallt kynnt hana sem systir mína, síðan kemur “Já eða þú veist, við eigum ekki sömu foreldra en hún er systir mín” þar sem mér hefur alltaf fundist skrýtið að eiga stjúpsystkini. Við kynntumst þegar við vorum börn, deildum herbergi og horfðum saman á Frozen oft og mörgum sinnum áður en við fórum að sofa. Ef það gerir okkur ekki að systrum þá veit ég ekki hvað.
Jana var skemmtileg, fyndin, með aulahúmor fyrir fimm, hugrökk, hæfileikarík og svo margt margt meira. Jana lýsti upp hvert herbergi sem hún kom inn í og gerði tilveruna hjá öllum svo bjarta bara með því að vera hún sjálf.
Allir sem þekkja Jönu ganga um tilveruna í dag með stórt hol þar sem Jana var, það mun aldrei neitt koma og fylla alveg í holið. Ég geng um í dag og sé fyndna sokka og hugsa að Jana myndi elska þessa. Ég vafra um á Disney og hugsa að Jana hefði elskað þessa nýju mynd sem var að koma út. Ég skoða fataverslun og sé peysu sem er alveg eins og hún átti. Ég sé hlut sem er einstaklega bleikur og veit að Jana myndi dást að honum fyrir það eina að vera svona fallega bleikur.
Í hvert skipti sem ég hugsa til Jönu á förnum vegi kemur eitt sandkorn í holið stóra. Þó svo að ég efast um að holið mun nokkurn tímann fyllast þá veit ég að með tímanum koma fleiri og fleiri sandkorn með minningum um hana Jönu okkar inn í holið. Á endanum verður holið með endalausum minningum um hana Jönu í gegnum lífið og tilveruna og hún lifir ennþá í gegnum okkur. Hún verður viðstödd afmæli, jól, giftingar, jarðarfarir og fleira í gegnum minningarnar okkar.
Jana var með meðfæddan hjartasjúkdóm og Neistinn gerði svo ótrúlega mikið fyrir hana og fjölskyldu okkar, (þó svo á þessum tíma var fjölskyldan mín og fjölskyldan hennar ekki orðin “fjölskyldan okkar”). Neistinn er frábært styrktarfélag sem gera svo frábæra hluti fyrir börn eins og Jönu.
Ég hleyp hálft maraþon fyrir elsku Jönu og hvet ykkur til að klæðast skemmtilegum, óhefðbundin sokkum, hlæja af prumpubröndurum. Fyrst og fremst hvet ég alla til að lifa lífið með hamingju í fararbroddi og hafa gaman.
Elsku Jana mín, ég sakna þín.
Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna
Markmið Neistans er m.a. að auðvelda aðgengi foreldra að upplýsingum sem snúa að hjartagöllum og hjartasjúkdómum barna og um meðferð þeirra. Þá sinnir Neistinn réttindum fjölskyldunnar og tilfinningalegum þörfum hennar, t.d. á upplýsingavef sínum, hjartagáttin.neistinn.is. Neistinn heldur úti öflugu félagslífi, fjölskyldum hjartabarna til skemmtunar og stuðnings og unglingastarfið þykir einkar líflegt. Þá stendur Neistinn að baki Styrktarsjóði Neistans, sem styrkir hjartafjölskyldur fjárhagslega.
Nýir styrkir